top of page

Örugg notkun vinnulyfta

  • baettoryggi
  • Sep 16, 2025
  • 2 min read

Eitt algengasta alvarlega vinnuslysið á Íslandi er slys við vinnu í hæð. Algengar orsakir slíkra slysa eru ófullnægjandi vinnuaðstæður eða óviðeigandi búnaður.Þegar vinna þarf í hæð þarf að velja rétta lausn hverju sinni. Best er að forðast vinnu í hæð ef það er mögulegt, en ef það er ekki hægt er fyrsta valkostur að nota fastan vinnupall. Þegar það er ekki í boði geta vinnulyftur verið mjög góður kostur, þar sem þær bjóða upp á stöðugan gólfflöt og tryggja að notendur geti hreyft sig um með öruggum hætti.Vinnulyftur eru mun öruggari kostur en stigar, enda draga þær verulega úr hættu á falli.

Í þessari grein fjöllum við um helstu gerðir vinnulyfta og hvernig nota á þær á öruggan hátt.


Góð vinnubrögð við notkun lyfta

Þjálfun og fræðsla

Mikilvægt er að allir notendur hafi fengið fræðslu og þjálfun á þann búnað sem á að nota.Sérstakar lyftur eins og spjótlyftur eða körfukranar krefjast lögbundinna réttinda (vinnueftirlitsréttinda). Vinnuveitendur bera ábyrgð á að tryggja að starfsmenn hafi réttindi og þekkingu áður en þeir nota búnaðinn.


Forskoðun búnaðar og aðstæður

Áður en lyfta er notuð skal framkvæma sjónræna skoðun:

  • Er lyftan í góðu ásigkomulagi (t.d. handrið heil, hurðir læsast)?

  • Er undirlagið traust og jafnt, án hættu á að lyftan renni eða sökkvi?

  • Er öruggt að aka lyftunni á svæðinu – eru ójöfnur, halli eða hindranir sem gætu skapað hættu?


Björgunaráætlun

Við vinnu í hæð þarf að huga að björgun ef neyðarástand kemur upp, t.d.:

  • Ef einhver fellur úr lyftunni

  • Ef lyftan bilar

  • Ef starfsmaður festist í hæð

Björgunaráætlun þarf ekki að vera flókin, en hún þarf að vera skýr og aðgengileg. Mikilvægt er að björgunaraðilar setji sig ekki í hættu við björgun.Ef viðbragðsaðilar eru langt frá þarf að gera ítarlegri áætlun og æfa viðbrögð, t.d. hvernig hægt er að koma einstaklingi örugglega niður úr lyftunni.


Rétt lyfta valin fyrir verkið

Skæralyftur

Skæralyftur má líta á sem færanlegan vinnupall sem hægt er að aka og hækka/lækka eftir þörfum.Þær eru sérstaklega hentugar þegar vinna þarf í beinni línu upp frá vinnusvæði, t.d. meðfram veggjum eða undir loft.

  • Góð venja er að nota fallvarnarbelti, og sum fyrirtæki gera kröfu um slíkt.

  • Ekki þarf sérstök réttindi til að nota skæralyftu, en starfsmenn skulu fá kennslu og þjálfun í öruggri notkun.

Spjótlyftur / körfukranar

Spjótlyftur (einnig kallaðar körfukranar) henta vel þegar komast þarf í erfiða staði sem skæralyfta nær ekki til, t.d. yfir hindranir.

  • Réttindi eru lögboðin til að stjórna spjótlyftum.

  • Alltaf skal nota fallvarnarbelti.

  • Sérstök hætta getur skapast ef aka þarf yfir ójöfnur – notendur geta skotist út úr körfunni ef þeir eru ekki tryggðir.


Umhverfisþættir

Við notkun vinnulyfta þarf einnig að huga að umhverfinu:

  • Rafmagnslínur – halda nægilegri fjarlægð

  • Gas- og vatnsleiðslur sem gætu skemmst eða truflað hreyfingu

  • Umferð á svæðinu – gæta þarf að gangandi og akandi umferð


Samantekt

Örugg notkun vinnulyfta felur í sér:

  • Rétt val á lyftu fyrir verkefnið

  • Þjálfun og fræðslu fyrir alla notendur

  • Daglega skoðun á lyftunni og aðstæðum

  • Björgunaráætlun og æfð viðbrögð

  • Virðingu fyrir umhverfisþáttum og hættum á svæðinu

Með þessum skrefum má draga verulega úr líkum á slysum við vinnu í hæð og tryggja öruggari vinnuaðstæður.

 
 
 

Comments


Pantaðu fund, þér að kostnaðarlausu.
Fylgstu með okkur á
  • Facebook
  • LinkedIn
Allur réttur áskilin 2025 - Bætt Öryggi ehf.
bottom of page